Kaupmáttur launa hefur hækkað um 2,3% síðustu tólf mánuði, samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun.

„Vísitala kaupmáttar launa í júní 2013 er 113,6 stig og lækkaði um 0,2% frá fyrri mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 2,3%,“ segir Hagstofan.

Þar segir jafnframt að launavísitalan hafi hækkað um 0,3% frá fyrri mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 5,7%.

Vísitala kaupmáttar launa sýnir breytingu launavísitölu umfram breytingu á vísitölu neysluverðs, það er að segja raunhækkun launa á tímabilinu.