Launavísitalan hefur hækkað um 8,1% milli ára en verðbólga mælist enn meiri og hefur kaupmáttur launa nú dregist saman um 1,7% á ársgrundvelli. Útlit er fyrir að kaupmáttur launa muni halda áfram að rýrna á næstu mánuðum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu Íslandsbanka.

Þrátt fyrir talsverða hækkun launa undanfarið ár hafi verðbólgan elt hækkunina uppi. „Kaupmáttur launa dróst saman um 1,3% á milli mánaða í júlí og hefur kaupmáttur launa nú dregist saman um 1,7% á ársgrundvelli. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar kaupmáttur mælist minni en á sama tíma ári fyrr en fram að því hafði kaupmáttur launa vaxið samfellt frá árinu 2010. Líklegt þykir að þessi þróun haldi áfram enda mælist verðbólga nú 9,9% og þrátt fyrir að útlit sé fyrir að hún taki að hjaðna á næstunni mun hún áfram mælast allmikil á næstu misserum,“ segir í greiningunni.

Jafnframt kemur fram að starfsmenn sveitarfélaga hafi hækkað mest í launum síðastliðið ár, eða um 9,4%. Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 8,3% á tímabilinu og laun ríkisstarfsmanna um 7,5%. Bent er á að í lífskjarasamningum hafi verið samið um krónutöluhækkanir og þar sem laun hjá starfsfólki sveitarfélaga séu yfirleitt lægri en hjá hinum framangreindu hópum skýri það að hluta þennan mun.

Laun í ferðaþjónustu hækkað mest

Þegar horft er til atvinnugreina má sjá að laun í ferðaþjónustu hafa hækkað mest síðastliðið ár, eða um nær 12%. Laun í fjármálageiranum hafa hækkað minnst, eða um 6%. „Ferðaþjónusta hefur komist á fullt skrið og viðsnúningurinn verið hraður. Frá áramótum hafa um 870 þúsund ferðamenn sótt landið heim. Það hefur verið mikil áskorun fyrir ferðaþjónustufyrirtækin að manna laus störf og kemur það því lítið á óvart að laun í geiranum hafi hækkað jafn mikið og raun ber vitni,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Útkoma kjarasamninga ráði miklu um framhaldið

Bankinn spáir því að verðbólga verði áfram mikil út árið. Ólíklegt sé að laun muni hækka hraðar en verðlag á næstunni og því sé frekari rýrnun kaupmáttar í vændum. Ef verðbólga taki að hjaðna hratt á næsta ári muni þróunin svo snúast við á nýjan leik. Á næstu mánuðum muni kjarasamningar renna út og útlit sé fyrir erfiðar kjaraviðræður í vetur. Útkoma samningana muni ráða miklu bæði um launaþróun og um verðbólguþróunina, og þar með þróun kaupmáttar næstu misserin.