Kaupþing hefur komist að samkomulagi við breska kaupsýslumanninn Vincent Tchenguiz um að greiða honum ótilgreinda upphæð í skaðabætur. Financial Times greinir frá.

Tchenguiz hafði krafið endurskoðunarskrifstofuna Grant Thornton og starfsmenn fyrirtækisins Steve Akers og Hossein Hamedani, auk Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar sem var formaður slitastjórnar Kaupþings og Kaupþing sjálft um 2,2 milljarða punda í skaðabætur, um 308 milljarða íslenskra króna.

Með sáttinni mun Tchenguiz falla frá öllum málsóknum á hendur aðilunum.

Tchenguiz sakaði þá um að hafa með ólöglegum hætti reynt að fá bresku efnahagsbrotalögregluna Serious Fraud Office (SFO) til að hefja rannsókn á háum lánum Kaupþings til Tchenguiz skömmu fyrir fall bankans. Fallið var frá rannsókn Serious Fraud Office (SFO) án þess að neinar ákærur væru gefnar út.

SFO greiddi Vincent Tchenguiz 3 milljónir punda, 420 milljónir króna í bætur vegna rannsóknarinnar og Robert Tchenguiz bróður Vincent, 1,5 milljónir punda, um 210 milljónir króna.