Pillar Securitisation, þrotabú Kaupþþings í Lúxemborg, krefur knattspyrnukappann Eið Smára Guðjohnsen um greiðslu fimm milljóna evra, jafnvirði rúmra 800 milljóna króna. Skuldin er tilkomin vegna lána sem Eiður Smári tók til fjárfestinga hér á landi fyrir hrun, að því er fram kemur í belgíska fjölmiðlinum De Morgen .

Í umfjöllun blaðsins er rifjað upp að Eiður Smári hafi verið tekjuhár í gegnum tíðina þegar hann spilaði með stórliðum á borð við Barcelona, Tottenham og Monakó. Ljóst sé að hann hafi ekki haldið fast um veskið á sama tíma. Rifjað er upp að þegar hann spilaði með Chelsea árið 2003 að hann hafi tapað 400 þúsund pundum í veðmáli.

De Morgen segir að reynt hafi verið að krefja Eið Smára um greiðslu lánsins en það ekki skilað neinum árangri. Af þeim sökum hafi verið farið með lánið fyrir dómstóla og sé nú svo komið að hluti launa hans hjá belgíska knattspyrnuliðinu Club Brugge rennur nú til þrotabús Kaupþings í Lúxemborg.