Skilanefnd Kaupþings hefur átt í viðræðum við Ålandsbanken Abp, sem enn eru í gangi, um að hann yfirtaki alla starfssemi Kaupthing Sverige fyrir utan fyrirtækjalánasafn, sem verður fært til Íslands. Lánasafnið er stærstur hluti sænskra eigna Gamla Kaupþings en eignir sem snúa að einkabankaþjónustu og eignastýringu færast til Ålandsbanken.

Í skýrslu skilanefndar til kröfuhafa kemur fram að aðilar hafa nú þegar skrifað undir viljayfirlýsingu og skilanefnd gerir ráð fyrir að skrifað verði undir kaupsamning í byrjun febrúar og að sölunni verði lokið fljótlega þar í kjölfarið. Innlán dótturfélagsins í Svíþjóð hafa verið greidd út til innstæðueigenda. Endurgreiðslan var fjármögnuð með láni frá sænska seðlabankanum.

Félagið er starfhæft með stuðningi sænskra yfirvalda. Kaupthing Pension Consulting og Kaupthing Finans AB hafa verið seld, enda var rekstur þeirra ekki hluti af kjarnastarfsemi Kaupþings í Svíþjóð og síðarnefnda félagið hefði þurft viðvarandi stuðning í formi viðbótarfjármagns segir í skýrslunni.