*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 13. febrúar 2006 17:01

KB banki hækkar verðmat sitt á Össuri

mælir með kaupum

Ritstjórn

Greiningardeild KB banka hefur unnið verðmat á stoð- og stuðningstækja fyrirtækinu Össuri. Niðurstaða verðmatsins er að verðmæti félagsins sé 690 milljónir dollara eða 44 milljarða króna sem gefur verðmatsgengið 112 krónur á hlut, en "Target price" er 123. Greiningardeild KB banka mælir því með kaupum á bréfum í félaginu, líkt og í síðasta verðmati sem unnið var í nóvember. Verðmatið er eingöngu gefið út á ensku.

Verðmatið er unnið eftir sjóðstreymisaðferð og er í verðmatinu gerð 10% ávöxtunarkrafa til eigin fjár félagsins og er veginn meðalkostnaður fjármagns (WACC) 8,7%. Í verðmatinu nú er notað þrískipt verðmatslíkan þar sem ekki er gert ráð fyrir að vöxtur eftir árið 2033 skili umframarðsemi til hluthafa. Áður hefur verið notað tveggja þrepa líkan sem gerir ráð fyrir föstum framtíðarvexti til eilífðar.

Miklar gjaldfærslur á fyrsta fjórðungi

Í verðmatinu nú er einnig að finna afkomuspá Greiningardeildar KB banka fyrir fyrsta ársfjórðung yfirstandandi árs. Þann 18 janúar tilkynnti Össur að félagið hefði keypt bandaríska fyrirtækið Innovation Sports. Í tilkynningunni kom einnig fram að á fyrsta ársfjórðungi yrðu gjaldfærðar um 3 milljónir dollara vegna endurskipulagningar. "Við áætlum að um 3,5 milljón dollara veltuaukning verði vegna innkomu Innovation Sports í samstæðuna en heildaráhrifin á fjórðungnum verða neikvæð vegna gjaldfærslunnar.
Þá er rétt að hafa í huga að vaxtagreiðslur Össurar hafa aukist verulega undanfarin misseri og einnig er félagið að afskrifa óefnislegar eignir sem Greiningardeild áætlar að muni nema um 2,6 milljónum dollara á fjórðungnum. Að þessu gefnu áætlum við veltu félagsins um 62 milljónir dollar á fyrsta ársfjórðungi, hagnað fyrir afskriftir (EBITDA) um 7,9 milljónir og hagnað fjórðungsins um 500 þúsund dollara," segir KB banki.