Keops Development, sem er í eigu Keops fasteignafélagsins, hefur ásamt tyrkneskum samstarfsaðilum sínum keypt um 88.000 fermetra stórt svæði í Bodrum í Tyrklandi. Þetta land er í sveit og líklega verður ekki hægt að byrja að undirbúa byggingu um 200 íbúða þar fyrr en eftir 2 til 3 ár. Þetta kemur fram á heimasíðu Baugs.

Þar kemur fram að félagið ætlar sér annað og meira á tyrkneskum markaði en bara byggingar sumarleyfisíbúða. Fyrirtækið er nú að vinna frumteikningar að íbúðabyggingum í hinu svonefnda Cekmekoy-hverfi. Stefnt er að því að reisa heilsársíbúðir á alls um 18-20.000 fermetrum sem selt verður heimamönnum. Reiknað er með því að sala á þessum íbúðum hefjist þegar næsta sumar.

Í Istanbúl búa nú um 16 milljónir manna og spár gera ráð fyrir að 600.000 til ein milljón manna flytjist árlega til borgarinnar. Í borginni er því gríðarleg þörf fyrir nýjar íbúðir af miklum gæðum, ekki síst í ljósi örrar efnahagslegrar þróunar í Tyrklandi og risavaxins markaðar fyrir íbúðarhúsnæði til handa miðstétt og efri hluta miðstéttar. Í borginni eru auk þess að rísa stórar verslunarmiðstöðvar, hótel og þess háttar en öll þessi þróun eflir þær væntingar sem menn gera sér um möguleika fasteignamarkaðarins í Istanbúl.

"Keops fer alltaf varlega inn á ný markaðssvæði. Verkefnin eru unnin í samstarfi við fyrirtæki og lykilmenn sem hafa góða þekkingu til að bera á staðháttum í Tyrklandi og þannig ætlum við okkur að vera fljótir að ná ákveðnum árangri í starfsemi okkar í Tyrklandi," segir Niels K. Thygesen forstjóri Keops Development.

"Keops stefnir að því að reisa, auglýsa og selja jafn margar íbúðir í Tyrklandi og í Danmörku á árinu 2006. Við munum einbeita okkur að íbúarhúsnæði af miklum gæðum og öryggi fyrir danska viðskiptavini í öllu viðskiptaferlinu," segir Thomas Erringsø, forstjóri Keops Alanya Emlak.

"Við höfum hlakkað mikið til þess að kynna verkefnið og ekki var hægt að finna betri tíma til þess en nú," segir Thomas Erringsø og vísar til þess að ný tyrknesk lög um afsal fasteigna hafa loksins verið samþykkt. "Við efuðumst aldrei um að þessi lög yrðu samþykkt í Tyrklandi en ég held að margir áhugasamir kaupendur í Danmörku hafi beðið þess að lögin tækju gildi. Nú hafa þau verið samþykkt og Tyrkir þar með lýst því yfir að erlendir ríkisborgarar hafi leyfi til að kaupa íbúðarhúsnæði í Tyrklandi."

Þrátt fyrir að erlendir kaupendur sumarleyfisíbúða beini í auknum mæli sjónum sínum að Tyrklandi er verðlag þar enn lágt miðað við verðlag í öðrum löndum við Miðjarðarhaf. Almenn spurn eftir sumarleyfisíbúðum vex stöðugt á heimsvísu og Keops býst við stöðugt vaxandi spurn eftir sumarleyfisíbúðum, bæði í Alanya og öðrum Miðjarðarhafshéruðum Tyrklands, til dæmis Bodrum.