Félag atvinnurekenda og fyrirtæki í samkeppni við Íslandspóst ohf. telja ríkisfyrirtækið hafa veitt Viðskiptablaðinu röng svör þegar leitað var til þess vegna lánveitingar Íslandspósts til dótturfélags síns, ePósts ehf. ÓlafurStephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segi rÍslandspóst ástunda mjög ósanngjarna samkeppni við einkafyrirtæki.

Augljóslega ósanngjörn og ójöfn samkeppni

Ólafur Stephensen segir skýringar skýringarnar ekki sannfærandi. „Íslandspóstur er augljóslega kominn út fyrir hlutverk sitt eins og það er skilgreint í póstlögum og er í beinni samkeppni við einkafyrirtæki sem eru að bjóða upp á svipaða þjónustu. Þarna er verið að reka dótturfyrirtæki með stuðningi og fjármögnun frá ríkisfyrirtækinu með hvínandi tapi með lánum sem bera að því er virðist ekki markaðsvexti. Þetta er bara svo augljóslega ósanngjörn og ójöfn samkeppni,“ segir Ólafur. Félag atvinnurekenda telur Íslandspóst ástunda mjög ósanngjarna samkeppni við einkafyrirtæki. „Ríkið á bara ekkert að vera í samkeppnisrekstri. Þetta fyrirtæki á bara að sinna því sem því er með lögum falið að sinna en það að það sé að fara svona langt út fyrir sitt starfsvið í samkeppni við einkafyrirtæki er fráleitt.

Sjálfstæðir atvinnurekendur eru verndaðir fyrir ósanngjarnri samkeppni frá ríkinu, bæði með ákvæðum póstlaga og ákvæðum samkeppnislaga. Það er ekki heimilt að láta einkaréttarstarfsemina niðurgreiða samkeppnisstarfsemina og það verður líka að vera mjög rækilegur bókhaldslegur aðskilnaður. Það hefur verið sýnt fram á það í úttekt frá Fjárstoð, sem unnin var fyrir okkur, að öll framsetning upplýsinga í ársreikningum og ársskýrslu Íslandspósts er með þeim hætti að það er mjög erfitt, fyrir jafnvel sérfróða menn, að átta sig á því hvort póstlögum og samkeppnislögum er fylgt að þessu leyti.

Aðgreining afkomu mismunandi starfsþátta fyrirtækisins, þ.e. á milli samkeppnis- og einkaleyfisrekstrar, er lögbundin en þessa framsetningu hefur ýmist vantað í ársreikningum Íslandspósts eða hún verið vísvitandi flækt þannig að ekki sé hægt að lesa það úr upplýsingum frá fyrirtækinu hvort það fari að lögum að þessu leyti. Það er að okkar mati afskaplega ámælisvert. Við höfum tekið þetta upp við innanríkisráðuneytið, PFS og höfum líka leitað til ríkisendurskoðanda og beðið um að þess mál verði skoðuð. Enn sem komið er hefur það lítinn árangur borið – kerfið virðist frekar í liði með ríkisfyrirtækjum heldur en sjálfstæðum atvinnurekendum,“ segir Ólafur að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfur af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.