Styrkur Invest, sem var að fullu í eigu Baugs Group, skuldbatt sig til að kaupa hlutabréf í FL Group að andvirði 13,7 milljarða króna tveimur dögum eftir að Seðlabanki Íslands lýsti því yfir að hann hygðist taka yfir 75% af hlutabréfum bankans fyrir hönd íslenska ríkisins gegn því að leggja honum til 600 milljónir evra í lok september 2008. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Strax í kjölfar yfirlýsingar Seðlabankans mánudaginn 29. september hrundi hlutabréfaverð Glitnis. FL Group var stærsti hluthafi bankans. Því var ljóst að eiginfjárstaða FL Group var á þessum tíma án vafa neikvæð, eins og segir í Morgunblaðinu. Félagið hafði farið fram á greiðslustöðvun og algjör óvissa var um rekstrarhæfi þess.  Samt sem áður var gengið á FL-bréfunum í þessum viðskiptum langt yfir markaðsverði.

Styrkur gerði tvo framvirka samninga um kaupin 1. október 2008 og afhendingardagur var tíu dögum síðar. Í fyrri samningnum skuldbatt Styrkur sig til að kaupa 82 milljónir hluta í FL á genginu 50,5. Í seinni samningi keypti félagið 793 milljónir hluta á genginu 12.

Engar eignir í þrotabúinu

Styrkur Invest, sem átti tæp 40% hlut í FL Group, átti ekki pening til að greiða tryggingu fyrir skiptakostnaði til að óska eftir gjaldþrotaskiptum í mars 2009. Tryggingin sem leggja þurfti fram er 250 þúsund krónur og fer í að greiða skiptastjóra.

Lýstar kröfur í bú Styrks, sem var að fullu í eigu Baugs Group, nema rúmum 47 milljörðum króna. Stærsti kröfuhafinn er Íslandsbanki með 17 milljarða kröfu. Landsbankinn gerir 12,8 milljarða kröfu í búið og þrotabú Baugs Group 9,8 milljarða króna. Engar eignir eru í félaginu til að greiða upp í kröfur.