Sjóvá hagnaðist um 756 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi, VÍS um 686 milljónir og TM um 481 milljón. Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir að afkoma tryggingafélaga byggist annars vegar á afkomu af tryggingarekstri og hins vegar af fjárfestingarstarfsemi. Í stuttu máli megi segja tryggingarekstur á öðrum ársfjórðungi hafi gengið fremur illa á meðan frábær afkoma hafi verið af fjárfestingum.

„Afkoma trygginga, mæld sem samsett hlutfall, var á bilinu 98-104% hjá félögunum sem ég held að hljóti að vera talsvert undir langtímamarkmiði félaganna,“ segir Stefán Broddi. „Þessi fremur slaka afkoma tryggingarekstrar týnist í mjög góðri afkomu fjárfestingarstarfsemi. Sú góða afkoma kemur til af óvenjumikilli hækkun verðbréfa á fjórðungnum.

Hefðu viljað skýrari skilaboð

Þegar vaxtastig, í sögulegu samhengi, er fremur lágt, eins og nú, er enn mikilvægara en ella að afkoma af tryggingarekstri sé betri því ekki er hægt að treysta á góða afkomu af fjárfestingum.“

Stefán Broddi segist halda að fjárfestar hefðu viljað fá skýrari skilaboð frá félögunum um það hvernig bæta megi afkomu tryggingarekstrar, jafnvel þótt það hefði falið í sér hækkun iðgjalda.

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Úr kauphöllinni, sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .