Kínversk yfirvöld hafa kynnt nýja stefnu í málefnum stáliðnaðarins í landinu til að mæta alvarlegum vanda sem er að skapast vegna offramleiðslu. Mun nýja stefnan einkum miða að því að taka úr umferð úreltustu og óhagkvæmustu stáliðjuver landsins sem framleiða um 100 milljónir tonna á ári.

Veður hafa sannarlega skipast fljótt í lofti á málmmörkuðum heimsins. Eftir gríðarlega eftirspurn eftir stáli á síðasta ári, einkum frá Kínverjum og Indverjum, rauk verð á stáli upp úr öllu valdi. Þá hófu Kínverjar að auka verulega við stálframleiðslu sína sem nú hefur leitt til offramboðs og verðlækkana. Flestir stóru stálframleiðendur heimsins vöruðu reyndar við þessari þróun á síðari hluta síðast árs og töldu fullvíst að offramboð frá Kína myndi leiða til lækkunar á heimsmarkaðsverði.

Samkvæmt frétt Xinhua News Agency þá gerði eftirlitsaðili iðnaðarins í Kína, The National Development and Reform Commission (NDRC), kunnugt á föstudag að ætlunin væri að koma böndum á stáliðnaðinn. Samkvæmt tilkynningu vegna elleftu fimm ára áætlun Kínverja (2006 til 2010) er ætlunin að taka úr notkun úreltan búnað og verksmiðjur í Kína sem á að draga úr stálframleiðslunni um 100 milljónir tonna. Strax í lok þessa árs á að vera búið að draga saman framleiðsluna um 55 milljón tonn.

Loka fjölda stálbræðslna

Tölur NDRC sýna að heildarframleiðsla Kínverja á stáli árið 2004 var 420 milljónir tonna. Um 100 milljónir tonna af þeirri framleiðslu komu frá úreltum stálbræðslum eða um 27% framleiðslunnar. Um 13% af heildarframleiðslunni eða um 55 milljón tonn voru framleidd í litlum stáliðjuverum með undir 20 tonna rafknúnum ofnum. Öll þessi framleiðsla mun falla undir nýja áætlun um samdrátt framleiðslunnar. Flestar eru úreltu stáliðjuverin í norðurhluta Kína eða 68,7% í héruðunum Hebei og Shanxi. Bara í Hebei verður búið að lokað úreltum bræðslum fyrir árslok sem framleiða samtals 6,1 milljón tonna af stáli.

Áætlanir NDRC gera einnig ráð fyrir endurskipulagningu á megin framleiðslustað stáliðnaðarins. Gert er ráð fyrir að breyta Caofeidian eyju, um 80 km suður af Tangshan og Peking (Beijing), í meiriháttar stálframleiðslusvæði. Mun stærsti stálframleiðandi og mesti mengunarvaldur Pekingborgar, Capital Iron and Steel Group Co., vera búinn að koma allri sinni starfsemi þar fyrir árið 2010. Þá er einnig reiknað með að minni framleiðendur í Kína muni sameinast til að vera betur í stakk búnir að mæta alþjóðlegri samkeppni. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að mynduð verði tvö eða þrjú stáliðjufyrirtæki með um 30 milljóna tonna framleiðslu hvert, til viðbótar fjölda stáliðjuvera sem geta í dag framleitt yfir 10 milljón tonn á ári.

Vonast NDRC til að heildarframleiðsla 10 stærstu stálframleiðenda Kína muni geta staðið undir meira en helmingi af ársnotkun Kínverja á stáli.