Bandaríkin hafa fagnað stuðningi kínverskra stjórnvalda við auknum efnahagsþvingunum á hendur stjórnvöldum í Norður Kóreu vegna kjarnorkuvopnatilrauna þessa einangraða kommúnistaríkis.

,,Sú staðreynd að kínverjar hafa hjálpað til og tekið þátt í að koma á þessum víðtæku refsiaðgerðum sýnir að þeir átta sig á að þetta er gríðarlega mikilvægt vandamál sem þarf að takast á við, sem er ógn við þá og þeirra eigin svæði," segir Susan Thornton hjá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna í WSJ , en hún sér um málefni Austur Asíu.

Minnka tekjur um einn af þremur milljörðum dala

Hittust ráðamenn í 27 ríkjum í Manilla, höfuðborg Filippseyja, til að reyna að stöðva kjarnorkuvopnaverkefni ríkisins. Samþykkti Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna í gær einróma ályktun sem myndi draga gjaldeyristekjur landsins saman um einn milljarð Bandaríkjadala, eða um þriðjung af gjaldeyristekjum norður kóreska ríkisins.

Kínverskir fjölmiðlar hafa sagt að stjórnvöld þar í landi hafi beitt hófsömum þrýstingi á norður kóresk stjórnvöld til að hætta eldflaugatilraunum á flaugum sem gætu borið kjarnorkuvopn, sem og kjarnorkutilraunirnar sjálfar, enda brýtur hvort tveggja á ályktunum Sameinuðu þjóðanna.

Donald Trump endurskilgreindi vandans sem vanda Kína fyrst og fremst

Norður kórea lýsir þó því yfir að refsiaðgerðirnar muni engu breyta, þó þeir ætli sér að viðhalda vinsamlegum samskiptum við Kína. Nýju reglurnar banna stjórnvöldum í Pyongyang, höfuðborg Norður Kóreu, að versla með kol, járn, blý og sjávarfang, sem og það bannar ríkjum að ráða norður kóreskt vinnuafl sem og að ráðast í sameiginleg fjárfestingarverkefni með stjórnvöldum í landinu.

Kom ályktunin eftir margra mánaða þrýsting frá bandarískum stjórnvöldum um að einangra kommúnistaríkið eftir miklar aðgerðir stjórnvalda þar í landi til að koma sér upp getu til að skjóta flaugum jafnvel alla leið að ströndum Bandaríkjanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt ítrekað að Norður Kórea sé vandamál Kína, og stjórnvöld þar í landi eigi að taka á vandanum, en landið hefur viðhaldið verslun og viðskiptum við stjórnvöld þrátt fyrir þrýsting annarra ríkja á að þeir hætti ógnandi hegðun við nágranna sína.