Kínverskir bankar lánuðu 640,5 milljarða júana í desember síðastliðnum. Þetta er talsvert umfram væntingar en flestir bjuggust við að nýjar lánveitingar myndu fara í um 580 milljarða júana í mánuðinum.

Breska útvarpið, BBC, segir að peningamagn í umferð hafi aukist um 13,6% í mánuðinum samanborið við nóvember.

Útvarpið bendir jafnframt á að aukið fjárstreymi sé í takti við aðgerðir kínverskra stjórnvalda, þau hafi slakað á fjárhagslegu aðhaldi og rói nú öllum árum að því að koma í veg fyrir að einkaneysla dragist saman.