*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 16. apríl 2021 17:58

Kínverska hagkerfið óx um 18,3%

Hagvöxtur í Kína á fyrsta ársfjórðungi var sá mesti frá upphafi mælinga en áhrif farsóttarinnar skekkja myndina töluvert.

Jóhann Óli Eiðsson
epa

Vöxtur kínverska hagkerfisins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 18,3% samanborið sama ársfjórðung á síðasta ári. Sá var, eðli málsins samkvæmt, litaður af mikilli útbreiðslu kórónavírussins þar í landi. Þrátt fyrir að hér sé á ferð mesti vöxtur vergrar landsframleiðslu (VLF) frá upphafi mælinga – þær hófust árið 1992 í Kína – er niðurstaðan undir spám. Þetta kemur fram á BBC.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 skrapp VLF saman um 6,8% sökum aðgerða sem gripið var til til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar. Það var því viðbúið að samanburður milli ársfjórðunga yrði nokkuð skakkur.

„Hagkerfið hefur náð góðri viðspyrnu en við verðum að vera á varðbergi því Covid-19 er enn að dreifa sér um jarðkringluna. Enn er því mikil óvissa í alþjóðslega viðskiptaumhverfinu og erfitt að spá fyrir um framhaldið,“ sagði í tilkynningu frá hagstofunni þar eystra. Þar kemur fram að í mars hafi aukning í iðnaði numið 14% og velta í verslun og þjónustu um rúmlega þriðjung.

Hagvöxtur Kínverja hefur löngum verið drifinn áfram af brennslu jarðefnaeldsneytis og er það raunin nú. Sama dag og hagvaxtartölurnar lágu fyrir tilkynnti forseti ríkisins, Xi Jingping, að Kína hygðist „frysta“ aukningu jarðeldsneytisútblástur fyrir árið 2030. Forsvarsmenn Evrópusambandsríkja hafa gefið út að það sé of seint.