Kínverskar fjármálastofnanir leita nú í auknum mæli eftir fjárfestingum og viðskiptum í Evrópu. Ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti kínversku útrásarinnar en fjallað var um málið í Wall Street Journal um helgina.

Sem dæmi er China Development Bank einn af fjórum fjárfestum sem vilja taka yfir þýska bankann WestLB AG sem á í fjárhagsvandræðum. Annar stór kínverskur banki, Industrial & Commercial Bank of China, opnar í mánuðinum útibú í París, Brussel, Amsterdam, Mílan og Madríd.

Haft er eftir bankamönnum og stjórnarliðum að fjárfestingar Kínverja gætu einungis verið byrjunin. Bæði kínverskir bankar og fjárfestingasjóðir leiti nú til Evrópu og er útrásin studd af kínversku ríkisstjórninni sem á mörg þeirra fyrirtækja sem um ræðir.

Talið er að ástæða útrásarinnar, sem kölluð er „The Go out“ í WSJ, sé sú að Kínverjar vilja spila stærra hlutverk í hinum alþjóðlega bankaheimi. Þá er gjaldeyrisforði landsins gríðarlega stór og eru fjárfestingar í Evrópu ein leið til að dreifa áhættu forðans.