Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa hætt viðræðum um nýja kjarasamninga. Fram kemur í tilkynningu frá ASÍ að í dag hafi komið í ljós djúpstæður ágreiningur við SA um launalið væntanlegs kjarasamnings, einkum sem snúi að hækkun lægstu launa. Svo langt sé á milli aðila að samninganefnd ASÍ telji forsendur brostnar fyrir þeirri leið sem átti að fara.

Þá segir í tilkynningunni að SA hafni þeirri kröfu ASÍ að hækka lægstu laun um ákveðna krónutölu. Því hafi samninganefnd ASÍ tilkynnt SA að viðræðum á þessum grunni sé hætt. Framhald viðræðna um gerð nýrra kjarasamninga er því í höndum aðildarsamtaka ASÍ.