Fjárfestingafélagið Kjölfesta hefur keypt tæplega 30% hlutafjár í Odda hf., á Patreksfirði. „Með þessu erum við að fjárfesta í sjávarútvegi, einni af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Tilgangur Kjölfestu er að mynda dreift eignasafn með því að fjárfesta í óskráðum félögum og styðja þannig um leið sókn og framþróun íslensks atvinnulífs,“ segir Kolbrún Jónsdóttir framkvæmastjóri Kjölfestu um viðskiptin.

Sigurður Viggósson framkvæmdastjóri Odda tekur í sama streng og telur það mikinn styrk fyrir félagið að fá Kjölfestu inn í eigendahópinn. Oddi er rótgróið sjávarútvegsfélag sem var stofnað 1967 og rekur eigin útgerð og fiskvinnslu á Patreksfirði. Oddi er framleiðandi á frystum, ferskum og söltuðum afurðum og er þekkt á mörkuðum hér heima og erlendis fyrir gæðaframleiðslu og góða vöru. „Með tilkomu Kjölfestu í eigendahópinn teljum við okkur verða enn sterkara félag og aukum möguleika okkar til vaxtar í framtíðinni.“

Fjárfestingafélagið Kjölfesta var stofnað 2012 og eru eigendur félagsins 14 fagfjárfestar þar af 12 lífeyrissjóðir. Tilgangur Kjölfestu er að fjárfesta í meðalstórum og smærri fyrirtækjum á Íslandi. Rekstraraðilar Kjölfestu eru Virðing hf. og ALM Fjármálaráðgjöf hf.  Arctica Finance var ráðgjafi Odda í þessu verkefni.