Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Íslandsbanka, kveðst viss um að áhugi ríki á meðal fjárfesta fyrir því að kaupa bankann. Stutt er síðan Íslandsbanki varð að fullu í eigu ríkisins. Þótt stefnt sé að sölu bankans ríkir enn óvissa um það vegna þess að von er á alþingiskosningum í haust.

Spurður að því hvernig nýtt umhverfi horfir við stjórnendum bankans segir Jón Guðni að starfsmenn finni lítið fyrir því í sínum daglegu störfum og að stjórnendur bankans velti sér lítið upp úr því.

„Við höldum áfram að reka bankann eins vel og við mögulega getum, sama hver eigandinn er,“ segir Jón Guðni.

„Það eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenska ríkið að selja hluti í bönkunum og lækka þar með skuldir. Ríkið er núna með eignarhluti í bönkunum og skuldir á móti og því fylgir alltaf áhætta, þó þetta sé góð eign. Ég held að það sé klárlega áhugi hjá fjárfestum. Við höfum hitt fjárfesta erlendis í gegnum árin, bæði skuldabréfafjárfesta og einnig hlutabréfafjárfesta. Ég held að það sé alveg klárt mál að það yrði áhugi á fjárfestingum í bankanum. Svo er það hitt líka að fyrir umhverfið á Íslandi þá sé betra að hafa einkarekna banka, þá sérstaklega að það sé ekki fleiri en einn banki í ríkiseigu.“

Nú verður gengið til kosninga bráð­ um og því óvissa með framtíð bankans. Hvernig horfir þetta við ykkur ef bankinn yrði í ríkiseigu næstu árin?

„Við erum vongóð um að það verði breytingar á næsta ári. Það verða kosningar í haust þar sem búast má við einhverjum breytingum. Við erum bjartsýn á að það verði mörkuð stefna með framhaldið og vonum að það verði frekar fyrr en seinna sem það verða skoðaðar breytingar með eignarhaldið. Ef það verður ekki og bankinn verður til lengri tíma í ríkiseigu þá vinnum við eins vel úr því og mögulegt er. Í því eru einhverjar ógnanir. Einhverjum starfsmönnum hugnast betur að vinna hjá einkafyrirtæki. En það eru líka tækifæri, öðrum starfsmönnum þætti gott að vinna hjá ríkisfyrirtæki og sumum viðskiptavinum þætti það jafnvel betra.“

Finnst þér líkur á því að hluti af starfsemi bankans yrði seldur frekar en allur bankinn?

„Þetta hefur verið mikið í umræðunni og þá sérstaklega aðskilnaður viðskiptaog fjárfestingarbanka. Það er ekkert óhugsandi í okkar huga og alveg eitthvað sem hægt er að skoða. Hingað til höfum við verið á þeirri skoðun að það sé hagkvæmara að reka þetta saman og að það sé hluti af þjónustuframboðinu að geta boðið upp á alhliða þjónustu. Síðan eru það aðrir sem eru í öðruvísi þjónustu, það eru til minni verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðirnir eru að veita útlán. Við horfum á það þannig að við stöndum fyrir það að veita alhliða þjónustu. Ef það yrði skipt upp þjónustunni þá myndi það breyta þeirri mynd ansi mikið. Fyrir utan það eru allar líkur á því að því myndi fylgja kostnaðaróhagræði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.