Eignarhaldsfélagið Fasteign hefur gert þjónustusamning við fasteignafélagið Klasa um að taka yfir rekstur félagsins frá 1. apríl. Bergur Hauksson, sem hafði verið framkvæmdastjóri Fasteignar, lét af störfum á sama tíma og samningurinn tók gildi. Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, gegnir nú einnig því starfi hjá Fasteign. Eftir breytingarnar er einn starfsmaður eftir hjá Fasteign en þjónustusamningurinn nær ekki til fjármálastjórnar félagsins.

Þá er líklegasta niðurstaða viðræðna Fasteignar við kröfuhafa sína sú að erfiðar eignir og skuldir verði teknar út úr félaginu. Niðurstaða á að liggja fyrir í maí. Þetta kemur fram í bréfi sem Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og stjórnarformaður Fasteignar, sendi hluthöfum í félaginu 11. apríl síðastliðinn. Viðskiptablaðið hefur bréfið undir höndum.

Vilja lækka skuldir

Fasteign er fasteignafélag í eigu nokkurra sveitarfélaga og Miðengis, dótturfélags Íslandsbanka. Félagið keypti fjölmargar fasteignir af sveitarfélögunum við stofnun og þau leigja þær síðan aftur af félaginu. Til viðbótar hefur verið ráðist í stórtækar framkvæmdir sem hafa verið afar kostnaðarsamar.

Viðskiptablaðið greindi frá því í mars að sveitarfélögin sem standa að Fasteign vilji að helstu kröfuhafarnir, Íslandsbanki og skilanefnd Glitnis, taki á sig þær skuldbindingar sem félagið stofnaði til vegna byggingar Háskólans í Reykjavík, óbyggðra höfuðstöðva Glitnis við Kirkjusand og mannvirkja á Álftanesi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, miðvikudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.