Baugur, Fons og FL Group voru helstu styrktaraðilar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins,  í prófkjöri flokksins í Reykjavík árið 2006. Þá börðust Guðlaugur Þór og Björn Bjarnason um annað sætið í Reykjavík. Guðlaugur Þór hafði betur í þeim slag.

Þessi fyrirtæki eru talin upp sem hluti af "klíku" Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í stefnu slitastjórnar Glitnis gegn forsvarsmönnum fyrrnefndra fyrirtækja auk fyrrverandi stjórnenda Glitnis.

Í tilkynningu sem Guðlaugur Þór sendi frá sér í dag kemur fram hvaða fyrirtæki og einstaklingar það voru sem veittu honum styrki upp tæplega 16 milljónir króna. Samtals fékk Guðlaugur Þór styrki upp á 24,8 milljónir króna fyrir prófkjörið. Hann fékk ekki heimild til þess að birta hverjir það voru sem styrktu hann um tæplega 9 milljónir.

Baugur, Fons og FL Group veittu öll styrki upp á tvær milljónir króna. Landsbanki Íslands og Austursel ehf. veittu svo styrki upp á 1,5 milljónir. Kaupþing og Atorka styrktu Guðlaug Þór um eina milljón en aðrir fyrir minna.

Guðlaugur Þór vitnar í lok tilkynningar sinnar til orða dr. Huldu Þórisdóttur þar sem hún tjáði sig um að menn yrðu að fara varlega í að draga ályktanir eftir á.

"Að lokum vil leyfa mér að vísa til þess sem fram kom nýlega í fyrirlestri hjá dr. Huldu Þórisdóttur um afleiðingar efnahagshrunsins á Íslandi, en hún sagði svo: „Ekki síst þurfum við að varast annan fúlan pytt, en það er tilhneigingin til eftiráskýringa með tilheyrandi "heilagri" vandlætingu. Hegðun sem í dag virkar e.t.v. augljóslega vafasöm eða röng, var ekki svo augljóslega röng þá og oftar en ekki algjörlega samþykkt á þeim tíma. Og það sem meira er, það er hollt að hafa í huga að ef hrunið hefði ekki átt sér stað er alls ekki víst að við hefðum nokkurn tíma byrjað að álíta þessa hegðun ranga... það er mjög hættulegt að gefa sér þekkingu sem maður hefur í dag til þess að skýra það sem gerðist fyrir 3 árum síðan. Það er gömul saga og ný að auðvelt er að spá fyrir um orðna hluti."" segir í tilkynningu Guðlaugs Þórs.

Tilkynningin sem Guðlaugur Þór sendi frá sér hljóðar svo:

Styrkir til einstaka frambjóðenda stjórnmálaflokka, sem og til stjórnmálaflokka í heild, hafa verið töluvert í umræðunni að undanförnu. Í viðtali í Kastljósi nýlega greindi ég frá því að ég myndi kanna hvort þeir aðilar sem styrktu framboð mitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2006 samþykktu að verða nafngreindir. Sumir hafa veitt samþykki sitt en aðrir ekki og mun ég virða það eins og ég hef áður sagt. Ég birti nöfn þeirra lögaðila sem eru gjaldþrota án þess að tala við viðkomandi forystumenn eða slitastjórn en ef viðkomandi aðili er látinn birti ég ekki nafn hans eða fyrirtækis hans. Nokkra aðila náði ég ekki í. Að auki talaði ég við einstaklinga og fór fram á leyfi til að birta nöfn þeirra en það hafa aðrir frambjóðendur ekki gert. Samtals voru styrkir til framboðs míns til efsta sætis á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður árið 2006 24,8 milljónir króna.

Þar af fékk ég styrki frá þeim aðilum sem hér greinir:

Actavis Group hf 250.000 Atorka Group hf 1.000.000 Austursel ehf 1.500.000 Baugur Group ehf 2.000.000 Bjarni Ingvar Árnason 250.000 Bláa Lónið 400.000 Borgarverk ehf 250.000 Brim hf 300.000 FL Group 2.000.000 Fons hf 2.000.000 Guðmundur Kristjánsson 200.000 Gylfi og Gunnar 200.000 HF Eimskipafélagið 500.000 Intrum á Íslandi 300.000 Kaupþing banki hf 1.000.000 Landsbanki Íslands 1.500.000 Milestone ehf 750.000 Sigurður Bollason 500.000 Tékk Kristall 200.000 VBS fjárfestingabanki 30.000 Vínlandsleið ehf 150.000 Þóra Guðmundsdóttir 500.000 Örninn hjól ehf 75.000

Samtals: 15.855.000

Aðrir ónafngreindir styrktu framboðið um 8.975.000 krónur, en um er að ræða 16 aðila, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Ég vil árétta það sem áður hefur komið fram að á þessum tíma voru engar reglur í gildi um prófkjör og styrki til þeirra sem tóku þátt í þeim. Skipti þá engu hvort um var að ræða stærri eða smærri prófkjör en til átta sig á umfangi þessa prófkjörs má geta þess að í Reykjavík höfðu vel um 22.000 sjálfstæðismenn rétt til að kjósa, en það eru álíka margir og allir kjósendur á kjörskrá í Kópavogi. Ég ákvað að fara að öllu leyti eftir þágildandi leiðbeiningum ríkisendurskoðanda um prófkjör þar sem öll fjárframlög runnu til sérstaks félags; Guðlaugur á Alþingi sem annaðist öll fjármál framboðsins. Í bókhaldi framboðsins er gerð grein fyrir öllum útgjöldum og kvittanir eru til fyrir þeim öllum. Þessar leiðbeiningar ríkisendurskoðanda urðu síðan undirstaðan í þeim reglum um styrki til framboða stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna sem tóku gildi árið eftir. Það að ætla sér að draga saman upplýsingar um hverjir styrktu einstaka frambjóðendur svo löngu eftir á mun aldrei verða annað en ófullkomin viðleitni til þess að bregðast við umræðu um fjármál flokka og frambjóðenda. Ástæðan er einfaldlega sú að upplýsingar vegna einstakra frambjóðenda eru illa samanburðarhæfar, meðal annars vegna þess að styrkir voru ekki eingöngu veittir í formi peninga.Þá er fjöldi þeirra kjósenda sem verið var að reyna að ná til mjög mismunandi milli kjördæma og þátttaka kjósenda mismikil eftir stjórnmálaflokkum.

Ég hef sent ríkisendurskoðanda bréf þar sem fram kemur að bókhald framboðs míns sem um ræðir og öll gögn þar að lútandi standa honum til reiðu ef eftir því verður leitað. Þar kemur m.a. fram að samkvæmt vinnureglum var stuðningur til framboðs míns í formi peninga, þ.e. ekki var tekið við óbeinum styrkjum í formi launa fyrir starfsmenn, ógreiddra auglýsinga o.fl. sem ekki hefði komið fram í bókhaldi framboðsins. Slíkur stuðningur, þ.e. sem ekki er í formi peninga, gerir samanburð eftir á milli framboða mjög erfiðan svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Rétt er að fram komi að reikningar félagsins hafa verið endurskoðaðir og áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Það vakti töluverða athygli og undrun margra á sínum tíma að ég skyldi sækjast eftir oddvitasæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna og etja þar kappi við sitjandi ráðherra. Það kom á daginn að þetta varð hörð prófkjörsbarátta og dýrari en búist var við í upphafi en að sama skapi var ljóst að margir vildu leggja baráttunni lið. Nálægt eitt þúsund sjálfboðaliðar tóku með einum eða öðrum hætti þátt í kosningabaráttunni. Í meira en þrjár vikur var troðfullt hús af sjálfboðaliðum , mikill baráttuandi og bjartsýni. Í Morgunblaðinu lýsti Dr. Gunni heimsókn sinni í kosningaskrifstofu mína með eftirfarandi hætti: „Í Lágmúla er gríðarleg maskína farin af stað. Það er kosningaskrifstofa Guðlaugs Þórs. Að koma þarna inn er eins og að mæta í fermingarveislu þar sem allir gestirnir sitja við tölvu og tala í síma.“ Þessi mikla stemmning skilaði sér í prófkjörinu þar ég náði góðri kosningu í það sæti sem ég sóttist eftir.

Ég baðst afsökunar fyrir þjóðinni í janúar 2009 á því að hafa ekki séð bankahrunið fyrir. Einnig hef ég lýst því yfir að það hafi veri mjög óheppilegt að löggjafinn eða við sjálfstæðismenn skyldum ekki setja reglur um prófkjör. Kostnaður við prófkjör var farinn úr böndunum og var það mjög slæmt ekki síst fyrir frambjóðendur sem þurftu að starfa í því umhverfi. Að gefnu tilefni vil ég endurtaka þá afsökunarbeiðni mína.

Að lokum vil leyfa mér að vísa til þess sem fram kom nýlega í fyrirlestri hjá dr. Huldu Þórisdóttur um afleiðingar efnahagshrunsins á Íslandi, en hún sagði svo: „Ekki síst þurfum við að varast annan fúlan pytt, en það er tilhneigingin til eftiráskýringa með tilheyrandi "heilagri" vandlætingu. Hegðun sem í dag virkar e.t.v. augljóslega vafasöm eða röng, var ekki svo augljóslega röng þá og oftar en ekki algjörlega samþykkt á þeim tíma. Og það sem meira er, það er hollt að hafa í huga að ef hrunið hefði ekki átt sér stað er alls ekki víst að við hefðum nokkurn tíma byrjað að álíta þessa hegðun ranga... það er mjög hættulegt að gefa sér þekkingu sem maður hefur í dag til þess að skýra það sem gerðist fyrir 3 árum síðan. Það er gömul saga og ný að auðvelt er að spá fyrir um orðna hluti."