Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, kveðst ekki skynja annað en eindreginn vilja og hug meðal þingmanna beggja stjórnarflokkanna um að það verði að ná landi í Icesave-málinu.

Spurður hvort hann telji að ríkisstjórnin spryngi verði Icesave-breytingar felldar á þingi svarar hann: „Ég held að sú ef-spurning komi aldrei upp." Vaxandi skilningur sé á því að ná verði landi í málinu.

Það sé stærra en ein ríkisstjórn.

Hann segir að enn séu samskipti í gangi milli Íslendinga, Breta og Hollendinga um breytingar á Icesave-ríkisábyrgðinni og fyrirvörum þingsins við hana. Hann segir að því miður sé enn ekki komin ásættanleg niðurstaða.  „Við erum enn að knýja fram betri frágang á ákveðnum atriðum."