Vanessa Bryant, eiginkona körfuboltakappans Kobe Bryant, hefur farið fram á skilnað frá manni sínum en skilnaðarpappírar hjónanna voru birtir opinberlega um helgina. Þau hafa verið gift í 10 ár.

Kobe Bryant er sem kunnugt er leikmaður NBA liðsins LA Lakers. Hann hefur oft þótt umdeildur, innan vallar sem utan. Í tilkynningu frá hjónunum sem birt var í fjölmiðlum vestanhafs um helgina kemur fram að skilnaður þeirra færi fram með aðstoð lögmanna. Þá báðu þau um svigrúm frá fjölmiðlum.

Það sem hins vegar vekur athygli og greint er frá á vef Forbes, er að enginn kaupmáli er undirritaður á milli hjónanna og því geta milljónir Bandaríkjadala verið í húfi. Skv. vef Forbes er Kobe Bryant næst launahæsti íþróttamaður heims á þessu ári en áætlað er að heildartekjur hans á árinu nemi um 53 milljónum dala. Þá segir Forbes að hann hafi fengið um 200 milljónir dala í laun á ferli sínum fyrir LA Lakers og um 250 milljónir dala fyrir auglýsingar, m.a. frá Nike.

Talið er að eignir Bryants nemi um 300 milljónum dala. Samkvæmt skilnaðarlögum í Kaliforníu ríki á Vanessa Bryant rétt á helmingi allra eigna hans.

Þá er einnig möguleiki á því að núverandi eiginkona hans fái hlutdeild í framtíðartekjum hans um óákveðin tíma. Það veltur á því hvernig skilnaðarlögfræðingar þeirra semja eða hvernig skilnaðardómstóll dæmir í málinu fari það svo langt. LA Lakers munu greiða Kobe Bryant um 80 milljónir dala á næstu þremur árum samkvæmt núverandi samningi. Þá fær Bryant um 30 milljónir dala á ári í tekjur utan vallarins.

Kobe og Vanessa Bryant þegar allt lét í lyndi.
Kobe og Vanessa Bryant þegar allt lét í lyndi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kobe og Vanessa Bryant þegar allt lét í lyndi.