„Iðnfyrirtæki eru fæld frá með illa hönnuðum skattatillögum og hótunum um þjóðnýtingu, nokkru sem á ekki að heyrast í þessum hluta heimsins. Umhverfið hér er þeim mjög óvinveitt,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sæti á í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Hann telur skattastefnu stjórnvalda vinna á móti efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var á dögunum.

Efnahagsáætlunin var til umræðu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær. Fundinn sátu meðal annars Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins.

Í efnahagsætlun stjórnvalda er kynnt nýtt hagvaxtarmódel sem byggir á framboðsdrifnum sjálfbærum hagvexti. Markmið hennar er að auka fjárfestingu, jafnt innlenda sem erlenda hér.

Tryggvi Þór og Hannes sögðu skattastefnu stjórnvalda, þar á meðal boðaður kolefnisskattur, auka frekar en hitt á óvissunna í efnahagsmálum og halda aftur af fjárfestingum í atvinnulífinu, það eigi jafnt við um erlenda fjárfestingu og fjárfestingu í sjávarútvegi.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, skrifaði í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag, frumvarp fjármálaráðherra um kolefnisskatt á rafskaut í orkufrekum iðnaði frá ársbyrjun 2013 ganga gegn samkomulagi sem gert var við Samtök atvinnulífsins og stóriðjufyrirtækin í desember 2009.

Þá hefur Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, fyrirtækis sem hyggst reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka, sagt kolefnisskattinn grafa undan samkeppnisstöðu slíks iðnaðar hér á landi. Áform um byggingu verksmiðjunnar fari af þeim sökum í uppnám.