Flestir, eða 21,3% svarenda, telja að hlutfall kvenna í stjórnum skráðra fyrirtækja sé 26-30%. Þetta kemur fram í könnun Gallup sem framkvæmd var fyrir Viðskiptablaðið. Þar á eftir svöruðu 15,9% því að hlutfall kvenna væri 16-20%. Hið rétta er að hlutfall kvenna í stjórnum er 45,5%.

Heildarfjöldi stjórnarsæta skráðra fyrirtækja eru samtals 77 og þar af eru stjórnarsæti kvenna 35. Gildandi eru lög um að lágmark hlutfall kynja skuli vera 40% í stjórnum fyrirtækja. Þessar niðurstöður gefa til kynna að annaðhvort þekki svarendur ekki til laganna eða þeir hafi ekki trú á að farið verði eftir þeim.

„Þessi niðurstaða þarf ekkert að koma mikið á óvart. Í gegnum tíðina hafa konur verið í miklum minnihluta í stjórnum félaga, þótt það hafi góðu heilli breyst hratt á síðastliðnum árum. Svo snýst þetta ekki síst um sýnileika kvenna í stjórnunarstöðum. Forstjórar eru yfirleitt sýnilegri en stjórnarmenn og það er bara eitt fyrirtæki á markaði með kvenkyns forstjóra innanborðs. Við þurfum að stuðla að meira jafnvægi kynjanna í stjórnunarstöðum og þá munu væntingar og viðhorf breytast,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Nánar er fjallað um könnunina í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .