Barbara Stewart er sjóðsstjóri hjá einu stærsta sjóðstýringarfyrirtæki Kanada, Cumberland PrivateWealth Management, en hún hélt nýlega erindi í Hörpu sem bar yfirskriftina Rich Thinking: How Smart Women Invest (e. Hvernig klárar konur fjárfesta). Þar kynnti hún rannsóknir sínar og hvatti jafnframt konur til að taka virkari þátt í fjárfestingum og fjármálalífinu almennt.

„Líkt og hvert annað fjármálafyrirtæki þá lentum við hjá fyrirtæki mínu í fjármálakrísunni í kringum 2008 og 2009 og þótt við komum vel út úr henni hlutfallslega, þá fundum við engu að síður fyrir neikvæðum anda frá viðskiptavinum okkar. Við vorum t.a.m. að ávaxta fé þeirra betur en markaðir á heimsvísu gerðu, en samt fundum við fyrir því að þeir voru vonsviknir. Ég fann að ég þurfti að finna eitthvað til að leiða hugann frá þessu andrúmslofti, þannig að ég fór að rannsaka konur og viðhorf þeirra til fjármála.“

Lesefni neikvætt í garð kvenna
„Það sem sló mig mest þegar ég hóf rannsóknir mínar var að næstum allt lesefni sem ég gat fundið talaði á neikvæðum nótum um þessi mál. Megnið af því sem ég las, jafnvel efni frá virtum fyrirtækjum, sagði að konur væru áhættufælnar, að konur færðu ábyrgð yfir til karlmanna, að þær létu aðra taka ákvarðanir fyrir þær, að þær fjárfestu ekki rétt eða þá að þær fjárfestu ekki yfirhöfuð. Þetta kom mér mjög á óvart miðað við þær konur sem ég þekkti til. Mér datt þá í hug að einbeita mér að konum sem færu vel með fjárfestingar sínar og miðla reynslu þeirra. Ég fór út um allan heim og spurði fólk hvort það þekkti klárar og áhugaverðar konur.“

Umfjöllun um Stewart er í blaðinu Áhrifakonur sem fylgdi Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .