„Stóri bróðir getur greinilega alltaf gert það sem hann vill,“ segir Kormákur Geirharðsson um dóm Héraðsdóm Reykjavíkur sem sýknaði hann, Skjöld Sigurjónsson og bræðurnar Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni af þeirri kröfu að Landsbankinn rifti ábyrgð á 10 milljóna króna ábyrgð sem þeir tóku á sig þegar þeir seldu rekstur veitingastaðarins Domo við Þingholtsstræti í Reykjavík undir lok árs 2009. Ábyrgðin var á láni sem kaupandinn fékk hjá Landsbankanum, sem var milligönguaðili í viðskiptunum. Kaupandinn lenti í hremmingum nokkru eftir að viðskiptin gengu í gegn og gat hann ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Kormákur sagði dóminn undarlegan, ekki síst fyrir þær sakir að veð voru á móti ábyrgðinni, eignir sem metnar voru á 20 milljónir króna. Fjórmenningarnir töldu Landsbankann ekki hafa staðið við sitt þegar kaupandi Domo lenti í vanda, svo sem að gæta hagsmuna þeirra. Þeir fóru því í mál við bankann.

Kormákur hafði ekki lesið dóminn yfir þegar vb.is ræddi við hann undir kvöld. Eins höfðu fjórmenningarnir ekki tekið ákvörðun um það hvort þeir ætli að áfrýja málinu. Ákvörðun um slíkt verður tekin áður en frestur til þess rennur út en þeir Skjöldur og bræðurnir Arnar og Bjarki verða erlendis fram í miðjan febrúar.