Umhverfisvakning og áhyggjur yfir orkuöruggi hafa gert það að verkum að Bandaríkjamenn eru í auknum mæli farnir að horfa til annarra orkugjafa en olíu til þess að knýja áfram farartæki sín. Stjórnvöld þar í landi hafa horft sérstaklega til etanóls til þess að stemma stigu við þörfina á innfluttri olíu og niðurgreiða framleiðslu slíks eldsneytis með ríkulegum hætti. Sú stefna hefur haft víðtækar afleiðingar: Hún hefur kallað fram mótmælaöldu fátækra í Mexíkó, verðhækkanir á jórturleðri, sætindum og matvælum eins og svína- og kjúklingakjöti. Ástæðan er einföld: Etanól er framleitt úr korni.

Það er ekki eingöngu áhugi núverandi valdhafa í Washington D.C. á umverfisvernd sem hefur fengið þá til að horfa til etanóls. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna þann 11. september 2001 hafa valdamenn á Vesturlöndum haft auknar áhyggjur af orkuöryggi - það er að segja að hversu háð þau eru innflutning orku frá óstöðugum heimshlutum. Þetta hefur fengið Bandaríkjamenn til þess að horfa til þeirra möguleika sem finnast innanlands. Bandaríkjamenn eru mestu kornræktendur heims og í ljósi þess er ef til vill engin furða að stjórnvöld hafi talið ráðlegt að styðja við bakið á framleiðslu á etanóli úr korni - ekrurnar eru jú nánast endalausar í Miðvesturríkjunum.

En göfugt markmið ráðamanna í Washington hefur haft víðtækar afleiðingar sem kunna að verða djúpstæðari þegar fram í sækir. Korn er til margra hluta nytsamt og því hefur eftirspurnaraukningin í kjölfar áherslu á etanólframleiðslu haft mikil áhrif á aðra geira hagkerfisins.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.