Neysla Íslendinga erlendis hefur aukist mikið undanfarið vegna hagstæðs gengis og þenslu í hagkerfinu. Þetta má ráða af tölum um greiðslukortaveltu sem Seðlabankinn birti í gær. Heildarvelta kreditkorta erlendis í ágúst var tæplega 3 ma. króna, sem jafngildir u.þ.b. 24% aukningu frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Þar sem gengi krónu hefur hækkað um rúm 10% á tímabilinu má gera ráð fyrir að aukningin í erlendri mynt hafi verið enn meiri.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að velta vegna notkunar greiðslukorta Íslendinga erlendis hefur raunar aukist mun meira en heildarvelta greiðslukorta, en aukning greiðslukortaveltu í ágúst frá sama mánuði 2004 var nálega 11,5% á föstu verðlagi. Þessi munur hefur verið viðvarandi allt frá 2003. Árið 2002, þegar kreditkortavelta dróst saman á föstu verðlagi var samdráttur erlendrar veltu að sama skapi mun snarpari en hinnar innlendu.

"Væntanlega eru hinar miklu sveiflur í erlendri veltu til komnar annars vegar vegna þess að sterkt samband er milli utanlandsferða almennings og kaupmáttar, og hins vegar af völdum gengisþróunar. Hátt gengi krónu hefur orðið til þess að verðlag erlendra vara og þjónustu er mun hagstæðara en innlendra, og því eðlilegt að neyslumynstur almennings, sem í auknum mæli hefur aðgang að erlendri smásöluverslun, breytist í átt til erlendrar neyslu. Þetta eykur hins vegar við viðskiptahallann og bætir í kjölfarið á þrýsting til gengislækkunar krónu," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.