Íslandsstofa og alþjóðlega ráðgjafar- og greiningarfyrirtækið Dealroom hafa sett upp upp gagnagrunn sem kortleggur nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Tilgangurinn er að gefa fjárfestum innsýn inn í íslenska nýsköpun og bæta upplýsingagjöf um fyrirtæki í leit að fjárfestingu.

Í grunninum má finna 355 fjármögnuð fyrirtæki, en innan skamms verður einnig hægt að finna upplýsingar um ófjármögnuð fyrirtæki. Gögnin eru unnin upp úr aðgengilegum upplýsingum um fjármögnun og gögnum sem fyrirtækin gefa upp sjálf.

„Það er mikill ávinningur í því fyrir íslensk fyrirtæki að fá slíkan gagnagrunn, sérstaklega í samstarfi við þekktan og traustan aðila á borð við Dealroom. Við sjáum það í rannsóknum sem Íslandsstofa framkvæmir á erlendum mörkuðum að vitund neytenda á lykilmörkuðum Íslands gagnvart ýmsum viðskiptalegum þáttum er lakari en fyrir hin Norðurlöndin til dæmis,“ segir Jarþrúður Ásmundsdóttir, fagstjóri hugvits og tækni hjá Íslandsstofu.

Í grunninum er einnig hægt að sjá hvaða svið nýsköpunar hafa laðað til sín mesta fjárfestingu, en eins og er stendur heilsutækni þar fremst, en þar á eftir koma snyrtivörugeirinn og hugbúnaðartæknifyrirtæki. Þá má sjá hvernig fjármögnun fyrirtækja hefur þróast frá árinu 2020.

Í nýlegri könnun sem Íslandsstofa lét framkvæma á meðal 250 sprotafyrirtækja kemur fram að þau sjá fram á mikinn vöxt á næstu árum. Íslandsstofa segir að nauðsynlegt sé að laða að aukið fjármagn í formi vaxtafjárfestinga til að svo megi verða og er gagnagrunnurinn liður í því.