Íbúar Garðabæjar og sveitarfélagsins Álftaness munu í haust kjósa um sameiningu sveitarfélaganna. Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna samþykkti bókun þess efnis í dag.

„Bæjarstjórnirnar þurfa sameiginlega að ákveða hvenær atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna fer fram. Kjósa skal sama dag í báðum sveitarfélögunum. Fram kemur í sveitarstjórnarlögum að kynna verði íbúum sveitarfélaganna tillöguna ásamt forsendum hennar með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara og er því gert ráð fyrir að til atkvæðagreiðslu komi í haust,“ segir um málið. Nefndin var sett á laggirnar á árinu 2010 eftir að bæjarstjórn Garðabæjar barst erindi frá sveitarstjórn Álftaness þar sem farið var fram á viðræður um sameiningar.