Bandaríska greiningarfyrirtækið Moody's segir að viðræður milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Bretlands úr sambandinu gætu tafist í kjölfarið á niðurstöðum nýafstaðinna kosninga til breska þingsins.

Segir Moody's að sú staðreynd að minnihlutastjórn verði mynduð í landinu í fyrsta skipti í tvo áratugi muni gera viðræðurnar flóknari og muni að öllum líkindum hægja á þeim. Segir fyrirtækið einnig að úrslitin geti sett meiri þrýsting á ríkisútgjöld þar sem óafgerandi niðurstaða kosninganna muni leiða til þess að stjórnvöld muni leggja minni áherslu á að draga úr fjárlagahalla landsins.

Telur Moody's að aukinn fjárlagahalli muni hafa neikvæð áhrif á lánshæfismat Bretlands sem myndi leiða til hærri vaxtakostnaðar. Þar af leiðandi myndi áhætta í ríkisfjármálum aukast þar sem halli á fjárlögum myndi aukast frá ári til árs.