Brúðkaup Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton mun kosta breskt samfélag um 5 milljarða punda, jafnvirði um 920 milljarða króna, samkvæmt útreikningum Aðalsamtaka bresks iðnaðar, CBI. Kostnaðurinn er þó ekki vegna veislunnar sjálfrar, heldur frídags sem veittur er Bretum vegna brúðkaupsins á morgun.

Telegraph greindi frá kostnaði breska hagkerfisins síðastliðið haust. Talið er að tapið verði mest hjá minni rekstraraðilum, vegna minnkandi sölu í takt við færri daga sem er opið. Vegna páskanna, frídagsins á morgun og lögbundins frídags næsta mánudag eru aðeins þrír vinnudagar í Bretlandi frá 22. apríl til 2. maí.

Eric Jackson, sérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu GTG Global trader, segir að þrátt fyrir kostnað samfélagsins muni tekjur tengdar brúðkaupinu vega upp á móti kostnaði, og mögulega vel það. Gríðarlegur áhugi er fyrir giftingunni um heim allan. Þannig hefur sjónvarpsréttur að viðburðinum verið seldur fyrir milljarða punda auk þess sem aukinn ferðamannastraumur og sala varnings skilar tekjum í þjóðarbúið.