Uppsafnað velferðartap vegna veiks bata í hagkerfinu getur numið allt að 3.400 milljörðum króna til ársins 2020. Útreikningana leggur Viðskiptaráð fram í skoðun sem ber heitið Velferðartap án vaxtar - stöðnun ekki kostur . Bent er á að landsframleiðsla Íslands var rétt rúmlega 1.500 milljarðar árið 2009. „Fjárhæðirnar sem hér um ræðir eru gríðarlega háar þar sem áhrif veikari vaxtar koma betur í ljós eftir því sem fram í sækir,“ segir Viðskiptaráð.

„Í nýlegri spá AGS (World Economic Outlook) um þróun hagkerfa heimsins til ársins 2016 kemur Ísland afar illa út og eru hagvaxtarhorfur einna dekkstar hér á landi. Af spánni má ráða að raunveruleg hætta sé á því að efnahagsbatinn verði það veikur að uppsafnað velferðartap geti hæglega 2 til 3 þúsund milljörðum líkt og nefnt er hér að framan.

Þegar horft er til alls tímabilsins, frá 2008 til 2016, þá er meðalhagvöxtur hér á landi um 0,8% sem er níundi slakasti árangurinn af þeim 183 löndum  sem spáin nær til. Meðalhagvöxtur þeirra ríkja sem spáin nær til er tæplega 4%. Litlu breytir ef horft er til „endurreisnaráranna“, þ.e. 2010 til 2013 þá fæst sama  niðurstaða  eða níunda neðsta sæti. Ef menn vilja teygja sig enn frekar og horfa  til 2011 til 2016 þegar öll áhrif og eftirköst kreppunnar ættu að vera komin fram þá er hagvöxtur enn afar veikur og er Ísland þá í 144 sæti af 183 löndum. Hvernig sem horft er á  þessar tölur þá er ljóst að batinn er langt frá því að vera viðundandi,“ segir í frétt Viðskiptaráðs.