Nokkurra mánaða tilhugalífi Actavis og þýska lyfjafyrirtækisins Merck lauk skyndilega á miðvikudagskvöldið þegar Actavis dró sig til baka úr yfirtökuviðræðum. Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, segir að heildarkostnaður vegna yfirtökutilraunar á Merck sé óverulegur. Skemmst er að minnast kostnaðarsamrar tilraunar Actavis til að yfirtaka króatíska lyfjafyrirtækið Pliva á síðasta ári án árangurs. Neikvæð fjárhagsleg áhrif vegna Pliva námu alls rúmleg tveimur milljörðum króna.


"Þetta ferli er mjög ólíkt Pliva ferlinu. Þá þurftum við að leggja fram bankatryggingar og fjármögnun í mjög langan tíma," segir Halldór. Hann getur ekki sagt nákvæmlega hver kostnaðurinn sé nú en fullyrðir að hann hafi óveruleg áhrif á afkomu Actavis á öðrum ársfjórðungi. "Það er bara ein ástæða fyrir því að við drógum okkur til baka: verðið, sem var einfaldlega of hátt," segir Halldór.


Fjölmiðlar telja að söluverð Merck liggi einhverstaðar á bilinu fjórir til fimm milljarðar evra sem samsvarar til 350 til 440 milljarða íslenskra króna.

Teva líklegust til vinnings

Tveir aðilar eru nú um hituna og eru enn í viðræðum við Merck. Af þeim er ísraelska lyfjafyrirtækið Teva talið líklegra til að hneppa hnossið. Actavis hefði orðið þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi hefði yfirtakan heppnast. Nú gætu hinsvegar örlög Actavis orðið á þá leið að fyrirtækið verði sjálft yfirtekið.


Halldór segir að ekki sé hægt að útiloka neitt í þeim efnum. Hann segir þó að Actavis muni fyrst og fremst huga að áframhaldandi eflingu undirliggjandi starfsemi félagsins og að útlit sé fyrir góðan vöxt og arðsemi á árinu. "Hinsvegar höfum við áfram áhuga á að ná aukinni stærðarhagkvæmi og munum því halda áfram að skoða kauptækifæri sem eru í dag flest af minni gerðinni," segir Halldór.