Af þeim tveimur álitamálum, sem tekist var á um í Icesave-málinu, var það einkum í tengslum við álitaefnið um hina almennu jafnræðisreglu EES-samningsins, sem málsstaður Íslands var talinn veikari, að sögn Einars Páls Tamimi. Einar Páll er lögmaður á Nordik lögfræðiþjónustu, fyrrum yfirlögfræðingur EFTA skrifstofunnar í Brussel, fyrrum forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi kennari í Evrópurétti.

Einar Páll Tamimi.
Einar Páll Tamimi.

„Krafan um ríkisábyrgð á innstæðutryggingum er í raun algerlega skotin í kaf af dómstólnum. Hann segir að eina skyldan, sem lögð sé á íslenska ríkið samkvæmt tilskipun ESB um innstæðutryggingar, sé sú að komið sé á kerfi sem tryggir innstæður. Markmiðið með slíku kerfi sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að tryggja innistæður ef lítill eða meðalstór banki verður gjaldþrota. Engin skylda liggi á ríkinu að sjá til þess að nægilegt fé sé inni í sjóðnum til að tryggja innstæður í tilviki kerfishruns eða að koma á kerfi sem bætt geti tjón innistæðueigenda að fullu undir slíkum kringumstæðum. Þvert á móti komi fram í dómnum að litið sé svo á að jafnvel sé óæskilegt að svo stór tryggingasjóður sé til staðar, bæði vegna óæskilegra hvataáhrifa og einnig vegna þess hve kostnaður við slíkt kerfi sé mikill.“

Einar Páll segir hins vegar að menn hafi almennt haft meiri áhyggjur af hinu deiluatriðinu, þ.e. því hvort að Ísland hafi brotið jafnræðisreglu og mismunað innstæðueigendum eftir þjóðerni. „Í raun ræðst dómsniðurstaðan sem slík hvað það atriði varðar af því hversu takmörkuð kröfugerð ESA var. ESA gerði enga kröfu um að íslenska ríkið ábyrgðist innstæður Hollendinga og Breta að fullu eins og gert var í tilviki íslensku innstæðueigendanna heldur takmarkaði kröfu sína við lágmarksinnstæðutryggingu. Hefði kröfugerð ESA verið önnur að þessu leyti hefðu röksemdirnar markast af því og að líkum verið verulega öðruvísi. Að fenginni niðurstöðu sinni bætir dómurinn því hins vegar við að ríki hafi samkvæmt EES-samningnum mjög víðtækt ákvörðunarvald um efnahagsaðgerðir á erfiðleikatímum. Dómurinn ýjar því mjög sterklega að því að niðurstaðan hefði orðið sú sama þótt kröfugerð ESA hefði verið víðtækari en hún í raun var, þó svo hvorki dómurinn né nokkur annar geti í raun slegið slíku föstu án þess að málsatvik eins og þau liggja fyrir hafi komið til skoðunar og röksemdir sem þau varða verið fluttar fyrir dómnum.“