Kraftur virðist í útgáfu krónubréfa um þessar mundir en síðustu tvo daga hefur verið tilkynnt um tvær nýjar útgáfur, segir greiningardeild Glitnis.

?Var þar annars vegar á ferðinni European Investment Bank (EIB) með viðbót við útgáfu sína sem er til rúmlega tveggja og hálfs árs. Þeir bættu við 2,5 milljörðum króna við útgáfuna og nemur hún þá sjö milljörðum króna. EIB hafa verið nokkuð atkvæðamiklir í krónubréfaútgáfu en alls hafa þeir gefið út rúma 52 milljarða í fimm útgáfum sem gerir þá að næst stærsta útgefanda þeirra.

Í gær tilkynnti svo Toyota Motor Credit Corp. um nýja útgáfu að andvirði þriggja mill. Það er þó nokkur tími síðan þeir sáust síðast á þessum markaði, eða í lok síðasta árs, en fyrir eru þeir með tvær fimm milljarða króna útgáfur.

Athygli vekur að nýja útgáfan er til rúmlega eins árs, með gjalddaga undir lok nóvember 2007. Það er rétt á eftir mesta kúfinum í gjalddaga krónubréfa en alls eru rúmlega 114 milljarða króna á gjalddaga á tímabilinu júlí til nóvember 2007. Það má því ætla að kaupendur bréfanna treysti á að gengi krónunnar gefi ekki verulega eftir vegna gjalddaga," segir greiningardeildin.