Krauma náttúrulaugar í Borgarfirði hafa byrjað að framleiða rafmagn úr heitu vatni í Deildartunguhver. Krauma hefur látið setja upp smávirkjun sem framleiðir 40 kW af rafmagni og mun nýta hluta af rafmagninu en selur  umframrafmagn til Orkusölunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Krauma er fullkominn staður til þess að sýna fram á notkunargildi vélarinnar enda eru jarðvarmaböðin á staðnum og nota vökva úr öflugasta hver Evrópu, Deildartunguhver. Með hitann í jarðvarmavökvanum að vopni má framleiða nægilega orku til þess að sjá Krauma fyrir rafmagni ásamt því að hjálpa til við að kæla jarðvarmavökvann áður en að hann fer í böðin, sem einnig sparar notkun kalds vatns. Því mun uppsetning smávirkjunarinnar hjá Krauma auka sjálfbærni baðanna til muna á grænan og umhverfisvænan hátt,“ segir Jónas Friðrik Hjartarson, framkvæmdastjóri Krauma, í tilkynningunni.

ORC smávirkjunin sem Krauma hefur látið setja upp er framleidd af franska fyrirtækinu Enogia. „Virkjunin nýtir lífrænan vökva sem sýður við lægra hitastig en vatn til að knýja tvær 20 kW míkrótúrbínur. Við þurfum að tengja bæði kalt og heitt jarðvarmavatn við vélina og rafmagnskerfi hennar tengist við rafdreifikerfi RARIK svo hægt sé að senda rafmagn inn á kerfið utan opnunartíma Krauma. Þetta er stórt og mikilvægt verkefni og þessi prófun á smávirkjuninni að búa til rafmagn úr heitu vatni héðan úr sveitinni er ákaflega spennandi. Það eru heitar uppsprettur á nokkrum stöðum í Borgarfirði og ef þetta verkefni gengur vel og verður hagstætt þá verður möguleiki á að framleiða rafmagn hér fyrir fyrirtæki og stofnanir,“ segir Jónas í tilkynningunni.

Krauma náttúrulaugarnar nota vatn úr Deildartunguhver en heita vatnið er kælt niður í gegnum varmaskipta og er því ekki blandað með köldu vatni. Laugarnar eru sex talsins, fimm heitar og ein köl og er hreinleiki þess tryggður með miklu vatnsrennsli í laugarnar.

Uppsetning ORC-smávirkjunar hjá Krauma er hluti af Evrópska samstarfsverkefninu MEET. Um er að ræða rannsóknarverkefni sem snýr að því að auka notkun jarðvarmaorku í Evrópu. Verkefnið er margþætt og að því vinna margir samstarfsaðilar í Evrópu, þar með talið Nýsköpunarmiðstöð Íslands.