Samstök sparifjáreigenda hafa stefnt Ólafi Ólafssyni og krefjast ríflega 900 milljóna króna bóta vegna markaðsmisnotkunar í Kaupþingi á árunum 2007 til 2008. Ólafur var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir aðkomu sína að Al Thani málinu svokallaða í Hæstarétti árið 2015.  Stefnan sem alls telur tólf þúsund orð var birt í Lögbirtingablaðinu í dag af Hróbjarti Jónatanssyni lögmanni.

Málsóknin byggir á því að málið hafi valdið hluthöfum í bankanum fjártjóni, þar með talið Stapa lífeyrissjóði sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, með því að blekkja þá annars vegar til að kaupa hlutabréf í bankanum á of háu verði og hins vegar til selja þau ekki áður en bankinn féll í október 2008.

„Stefnandi byggir á því að fjártjón vegna viðskipta Stapa lífeyrissjóðs með hlutabréf í Kaupþingi sé afleiðing saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda sem rakin hefur verið hér að framan. Séu bein orsakatengsl milli markaðsmisnotkunar stefnda og tjóns Stapa lífeyrissjóðs af kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi á því tímabili sem markaðsmisnotkun stefnda átti sér stað,“ segir í stefnunni.

Varakrafa í málinu hljóðar upp á 454 milljóna skaðabætur og þrautaravarakrafa 132 milljón króna bætur. Þingfesta málsins fer fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í september.