Hagkerfi Spánar dróst saman um 0,4% á fyrstu fjórum mánuðum ársins, samkvæmt nýbirtum upplýsingum seðlabankans þar í landi. Þetta er annar fjórðungurinn í röð sem hagkerfið skreppur saman og þumalfingursregla að þegar slíkt gerist megi segja að kreppa hafi skollið á. Samdrátturinn nam 0,3% á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er jafnframt annað samdráttarskeiðið sem Spánn er að ganga nú inn í eftir fjármálakreppuna sem hófst árið 2008. Landið er á meðal þeirra skuldsettu evruríkja sem líklegt þykir að verði á meðal þeirra næstu sem þurfi á fjárhagsaðstoð að halda.

Reuters hefur upp úr gögnum seðlabankans að mikill samdráttur í einkaneyslu dragi hagkerfið niður að þessu sinni. Bankinn segir í mánaðarskýrslu sinni sem birt var í dag óvíst um horfurnar næstu mánuði, ekki síst hvernig línurnar verði fram að áramótum.

Reuters bendir á að samkvæmt efnahagsáætlun ríkisstjórnar Spánar er gert ráð fyrir 1,7% samdrætti á árinu. Seðlabankinn er hins vegar örlítið bjartsýnni og spáir 1,5% samdrætti.