Sala á gosdrykknum Coca Cola hefur dregist saman um 25% í Bandaríkjunum, það sem af er mánuði. Þykir þetta sýna að heimsfaraldurinn hafi einnig neikvæð áhrif á fyrirtæki sem fyrirfram var reiknað með að væru ekki viðkvæm fyrir því ástandi sem faraldurinn hefur skapað.

Við upphaf faraldursins, þegar fólk var að hamstra vörur, jókst sala á Coca Cola en nú hefur þróunin snúist við. Samdráttinn má meðal annars rekja til lokana á veitingastöðum og íþróttaleikvöngum. Coca Cola á fjölda vörumerkja og hefur sala á ávaxtasafanum Minute Maid til að mynda aukist í kreppunni. Er skýringin talin vera sú að nú sé algengara að fólk fá sér morgunverð heima og þá gjarnan ávaxtasafa.

Forsvarsmenn Coca Cola hafa lýst því yfir að kostnaður við markaðssetningu og ferðalög starfsmanna verði skorinn niður til að bregðast við ástandinu.