Krepputal í fjölmiðlum virðist enn á hægu en stöðugu undanhaldi, að því er kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Þar er fjallað um svokallaða K-orðs vísitölu, sem einfaldlega byggir á því að telja hversu margar fréttir eða greinar innihalda orðið „kreppa“ á gefnu tímabili.

Vísitala greiningardeildar Arion banka inniheldur fréttir allra íslenskra prent- og ljósvakamiðla á mánaðargrundvelli eins og þær birtast í ítarleit Fjölmiðlavaktarinnar.

Athygli vakti áberandi toppur á notkun orðsins kreppa í aprílmánuði síðastliðnum, en þá var orðið notað í um 75% fleiri fréttum og greinum en í mánuðunum rétt á undan og eftir. „Skýringarinnar er þó ekki að leita í því að sérstök kreppa hafi ríkt á landinu einmitt þennan mánuð, heldur teljum við líklegra að stjórnmálaflokkar og stuðningsfólk þeirra hafi reynt að afla eigin málstað fylgis (eða koma höggi á andstæðar fylkingar) með skrifum um kjörtímabilið sem leið – og þá hafi kreppuhugtakið oft skotið upp kollinum.“

Í Markaðspunktunum segir að lausleg athugun á fréttum tímabilsins renni stoðum undir þessa kenningu, en þar megi finna fjöldann allan af pistlum og fréttum tengdum kosningunum þar sem fjallað er um frammistöðu stjórnmálamanna í kreppunni, og hvað þurfi að gera til að koma landinu úr kreppu. Þá voru jafnframt einhverjir sem lýstu því yfir að stjórnmálin eða einstakir stjórnmálaflokkar væru í kreppu, án þess að orðanotkunin hefði beint með efnhagsástandið að gera. Nokkuð dró úr krepputali af þessum toga um leið og kosningunum lauk.

K-orðs vísitalan getur að sögn greiningardeildarinnar gagnast við að leggja mat á ástand hagkerfisins á hverjum tíma. „Í fyrsta lagi sjá fjölmiðlar efnahagsástandið með berum augum og greina frá erfiðum aðstæðum fólks í skuldavanda, matarúthlutunum, fjöldauppsögnum o.fl., í öðru lagi greina þeir frá hagmælingum víða að og í þriðja lagi leita þeir iðulega viðhorfa fjölda sérfræðinga. Með því að mæla tíðni orða sem eru líklegri að birtist í fréttum þegar efnahagsástandið er slæmt er þannig hægt að taka saman í eina vísitölu fjölda heimilda um efnahagsástandið sem eiga rætur sínar að rekja mjög víða. Vísitalan hefur einnig þann kost að vera bæði einföld og fljótleg í mælingu, svo hægt er að nálgast samtímaupplýsingar um hagkerfið með mun minni tilkostnaði en hefðbundnar hagmælingar bjóða upp á – þótt auðvitað sé vísitalan fjarri því að vera fullkomlega áreiðanleg,“ segir í Markaðspunktunum

Engu að síður er skýr fylgni á milli hagvaxtar og fjölda kreppufrétta. Til viðbótar er þess getið í Markaðspunktunum að frá árinu 2006 hefur aldrei mælst neikvæður hagvöxtur þegar færri en 300 kreppufréttir hafa birst á fjórðungi. Það sé vonandi til marks um að hagkerfið hafi ekki dregist saman á fjórðungnum sem leið þrátt fyrir að verulega hafi hægt á hagvexti frá miðju síðasta ári, en 227 kreppufréttir birtust á öðrum fjórðungi ársins.