Nú stunda um 14.600 nemendur nám við Háskóla Íslands (HÍ) og mikið hefur verið fjallað um hlutverk skólans nú þegar syrtir í álinn í þjóðfélaginu. Aðspurð um það hvort skólinn sé ekki orðinn of stór segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, að ef miðað sé við háskóla í nágrannalöndunum sé HÍ frekar lítill að stærð.

„En stærðin gefur okkur líka styrk og hann er ekki orðin of stór, síður en svo. Við náum ákveðinni fjárhagslegri hagkvæmni vegna stærðarinnar og við náum líka verulega að styrkja hann faglega vegna stærðarinnar,“ segir Kristín.

Í Viðskiptablaðinu í dag má sjá ítarlegt viðtal við Kristínu þar sem hún fjallar um stöðu skólans eftir bankahrun, samskiptin við atvinnulífið, stefnu skólans að komast í hóp 100 bestu háskóla heims og þátttöku háskólamanna í þjóðfélagsumræðunni svo eitthvað sé nefnt.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í heild sinni.

Hvað er það sem er haft að leiðarljósi ef fjármálin og stefnan fara ekki saman? Verður komist hjá því að skera niður í kennslu og fækka deildum?

„Við höfum reynt að fara bil beggja, þ.e. að halda við stefnumarkmiðin eftir því sem við höfum getað, aukið kennsluálag, fækkað námskeiðum og hagrætt eins og við getum í öllum rekstri,“ segir Kristín.

Blaðamaður hefur orð á því að nú sé mjög mikið námsframboð í háskólanum og margar, mismunandi stórar, deildir í boði. Kristín tekur undir það en segir óhjákvæmilegt fækka námskeiðum enn frekar ef fer sem horfir.

„En þetta er allt hluti af stærri heildarmynd. Við höfum dregið úr yfirvinnugreiðslum þótt álag hafi verið aukið. Við höfum einnig fækkað námskeiðum og lækkað laun stjórnenda um 8 – 15%,“ segir Kristín.

„Vissulega höfum við þurft að hægja á áformum um að styrkja vísindastarf, nýsköpun og kennslu eins og við ætluðum.“

Hvað með aukna kostnaðarþátttöku nemenda, svo vitnað sé í endurtekna umræðu um skólagjöld?

„Það verður ekki hjá því komist, miðað við þær fyrirætlanir sem eru um samdrátt í opinberum framlögum, að ræða um og skoða hækkun skráningargjalda eða annarra gjalda við skólann. Það er verkefni sem háskólar og stjórnvöld verða að ræða sameiginlega,“ segir Kristín.

„Okkur er sagt að búast við skerðingu næstu 3 ár um 20-25%. Þetta er grafalvarlegt og auðvitað er þetta eitthvað sem við þurfum að skoða.Við þurfum að skoða allt háskólastigið. Hvort við ætlum að horfa upp á það að mátturinn sé dreginn úr öllum sjö háskólum landsins á næstu þrem árum eða hvort við reynum að hagræða í stóru myndinni.“

Talandi um sjö háskóla. Eru kannski of margir háskólar á Íslandi?

„Það hefur verið mikil gróska í háskólastarfi hér undanfarin ár og mikill metnaður hjá öllum skólum sem hér starfa“, segir Kristín.

„Þetta hefur vissulega haft örvandi áhrif á Háskóla Íslands þótt hann beri sig fyrst og fremst saman við alþjóðlega háskóla og vísindastofnanir. Það er hins vegar alveg ljóst að ef háskólarnir þurfa að fást við fjórðungs niðurskurð á þremur árum verða þeir alvarlega laskaðir. Þá þurfum við að meta hvort er mikilvægara að halda úti sjö menntastofnunum eða að ná markmiðum um að bjóða upp á háskólamenntun í fremstu röð með færri einingum. Ég er þeirrar skoðunar að breytingar af því tagi séu óhjákvæmilegar. Skólarnir eru allir reknir fyrir almannafé og ég hef sagt það áður að það hvílir á okkur sú ábyrgð að finna á þessu heppilega og hagkvæma lausn."

Nánar er rætt við Kristínu í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.