Íslenska krónan veldur því að fjármagnskostnaður hér á landi er mun meiri en í öðrum ríkjum, heimilum og fyrirtækum til mikils ama.

Þetta sagði Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) fyrr í dag.

Kristín fjallaði í erindi sínu um fjármálageirann og sagði í upphafi að þetta væri geirinn „sem allir elska að hata“ eins og hún orðaði það. Kristín sló aftur á létta strengi þegar hún rifjaði upp stofnun Auðar Capital árið 2008, sem stofnaður var af konum eingöngu, og sagði að margir hefðu litið á þær sem „væmnar kerlingar sem ekkert vissu um viðskipti“ eins og hún komst að orði.

Kristín sagði þó að viðhorfið til bankans hefði breyst mikið síðan þá en hins vegar væri viðhorfið til fjármálageirans þó en neikvætt.

Kristín vék einnig að stöðu fjármálageirans og sagði opinbert eftirlit með geiranum verða orðið of mikið og of íþyngjandi. Þannig benti Kristín á að fjármálageirinn hefði á síðasta ári greitt um 23 milljarða króna í álögur, samanborið við 25 milljarða króna árið 2008. Þó svo að þarna munaði aðeins tveimur milljörðum króna benti Kristin á að fjármálageirinn hefði skroppið saman um 60% á sama tímabili. Kristín benti einnig á að rekstur Fjármálaeftirlitsins hefði aukist um 75% frá hruni. Hún tók þó fram að hún væri ekki að kalla eftir því að fjármálageirinn yrði eftirlitslaus, þvert á móti – en þarna þyrfti þó að fara milliveginn.

Þá vék Kristín sem fyrr segir að krónunni og gjaldmiðlamálum. Hún sagði mikilvægt að taka upp nýjan gjaldmiðil hér á landi og núverandi staða byði upp á mikla bjögun á verðmyndum þess fjármagns sem væri í umferð. Þannig tók Kristín dæmi um að þeir fjárfestar sem kæmu með fjármagn til landsins í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans, og fengju um leið 20% afslátt á krónum, væru með allt annað vermat á sínum krónum en þeir sem fyrir eru í landinu og eru bundnir inni í fjármagnshöftum.