Kristín Pétursdóttir hefur verið ráðin forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Mentors ehf. og tekur hún til starfa í janúar 2016. Kristínu er ætlað að leiða áframhaldandi uppbyggingu og sókn félagsins á alþjóðlegum markaði.

Kristín er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með mastergráðu í alþjóðaviðskiptum frá Handelshöyskolen í Bergen.

Kristín Pétursdóttir er annar stofnenda og fyrrum forstjóri Auðar Capital. Auður Capital var stofnað vorið 2007 og starfaði Kristín sem forstjóri félagsins til 2013 er hún tók við sem stjórnarformaður.

Auður Capital sameinaðist Virðingu í ársbyrjun 2014 og er hún stjórnarformaður sameinaðs félags.

Kristín var aðstoðarforstjóri hjá Kaupþingi Singer & Friedlander í London árin 2005-2006 og framkvæmdarstjóri fjárstýringar Kaupþings frá 1997-2005, en áður en hún hóf störf hjá Kaupþingi starfaði Kristín hjá Statoil í Noregi, Íslandsbanka og Skeljungi.

Vilborg Einarsdóttir, stofnandi Mentors, segir að það sé mikill fengur að fá Kristínu í starf forstjóra:

„Það er mikill fengur fyrir Mentor að fá Kristínu inn sem nýjan forstjóra með sína miklu þekkingu og reynslu. Ég hlakka til að vinna með henni og að geta einbeitt mér að því að opna nýja markaði og styrkja Mentor kerfið enn frekar sem námskerfi á heimsvísu.”