*

föstudagur, 10. júlí 2020
Fólk 6. janúar 2020 14:02

Kristinn Már nýr lögfræðingur Póstsins

Forstjóri Íslandspósts segir mikilvægt að hafa lögfræðiþekkingu innan fyrirtækisins því málefni póstsins oft flókin.

Ritstjórn
Kristinn Már Reynisson nýr lögfræðingur Íslandspósts starfaði áður hjá Samkeppniseftirlitinu, Fjeldsted & Blöndal Lögmannsstofu og við Háskólann í Árósum.
Aðsend mynd

Kristinn Már Reynisson hefur verið ráðinn til Póstsins til að gegna stöðu lögfræðings, en hann starfaði síðast hjá Samkeppniseftirlitinu en þar áður starfaði hann hjá Fjeldsted & Blöndal Lögmannsstofu.

Um árabil starfaði Kristinn við laga- og viðskiptafræðideild Háskólans í Árósum þar sem hann sinnti rannsóknum á stjórnarháttum og ábyrgðum félagasamstæðna og viðskiptum tengdra aðila. Starfaði hann þar sem Lektor auk þess að hann hlaut doktorsgráðu vegna rannsókna sinna.

Meðfram því starfi var hann gestafræðimaður hjá Columbia Law School og UC Berkeley Law School. Hann hefur sinnt kennslu  í hlutafélagarétti, alþjóðlegum skattarétti og evrópskum umhverfisrétti við Lagadeild Háskóla Íslands ásamt því að vera leiðbeinandi M.A. ritgerða á sviði skattaréttar og fjármunaréttar.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni sem mér er treyst fyrir og ég er þess fullviss að það verði bæði skemmtilegt og krefjandi. Að koma hingað til Póstsins á þessum tímapunkti er gríðarlega spennandi ,en fyrirtækið er að taka miklum breytingum og ég hlakka mikið til verkefnisins.“ segir Kristinn Már.

Kristinn er menntaður Mag.Jur. frá lagadeild Háskóla Íslands og er með LL.M. meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi.

„Við fengum Kristinn til liðs við okkur vegna þess að við teljum mikilvægt að hafa lögfræðiþekkingu innan félagsins. Hann mun sjá um samskipti við opinbera aðila en eins og við vitum getur oft verið um flókin mál að ræða þegar Pósturinn á í hlut og mikilvægt að hafa mikla þekkingu á þeim málum sem um ræðir hverju sinni,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Póstsins.

„Kristinn mun einnig veita starfsmönnum okkar ráðgjöf í ýmsum málum og tryggja eftirfylgni þegar það á við. Við erum mjög ánægð með að fá Kristinn í liðið og erum fullviss um að þetta sé skref í rétta átt. Við viljum tryggja að við séum alltaf að fara eftir settum lögum og reglum og er Kristinn lykilmaður þegar kemur að því.

Miklar hagræðingaraðgerðir hafa staðið yfir hjá Íslandspósti undanfarin misseri en stefnt er að því að þær spari fyrirtækinu ríflega hálfan milljarð á ársgrundvelli. Lögmaðurinn Andri Árnason hefur um árabil sinnt lögfræðiþjónustu fyrir Póstinn en hann var um skeið launahæsti starfsmaður félagsins. Á árunum 2013-18 keypti Pósturinn lögfræðisþjónustu af Andra fyrir 121 milljón króna en hæstar voru greiðslurnar árið 2017 er hann fékk tæplega 31 milljón króna greidda. Það sama ár námu launagreiðslur til þáverandi forstjóra, Ingimundar Sigurpálssonar, 20 milljónum króna.