Aðalfundur SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, var haldinn fimmtudaginn 26. apríl. Á fundinum var kosinn nýr formaður Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá Truenorth. Kristinn tekur við af Hilmari Sigurðssyni, framkvæmdastjóra GunHill sem hefur gegnt starfi formanns í fjögur ár.

Kristinn hefur áður starfað að sjónvarpsþáttunum Pressu og Ástríði, auk þess sem hann kom að framleiðslu kvikmyndanna Fish Out of Water, Days of Gray og Shamers' Daughter. Hann lærði hjá American Film Institute í Los Angeles.

Tilgangur SÍK er að efla íslenska kvikmyndagerð og gæta hagsmuna og réttar sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda. Í SÍK eru yfir 40 kvikmyndaframleiðslufélög og þar á meðal öll stærstu framleiðslufyrirtæki landsins.