Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, Birna Loftsdóttir og Sigríður Vilhjálmsdóttir hafa keypt eignarhluti annarra einstaklinga í hluthafahópi Fiskveiðahlutafélagsins Venusi. Seljendur eru þær Kristín Vilhjálmsdóttir og Ingibjörg Björnsdóttir, ekkja Árna Vilhjálmssonar, fyrrverandi stjórnarformanns HB Granda en hann lést fyrr á árinu. Þær selja samanlagðan 31,44% hlut sinn í Fiskveiðahlutafélaginu. Þar af átti Ingibjörg 15,72% hlut í félaginu. Saman áttu fjölskyldur þeirra Kristjáns og Árna stóra hluti í HB Granda og Hval.

Kaupin gera þau í gegnum einkahlutafélagið Svöluhraun ehf sem stofnað var til þess að kaupa hlut hinna. Eftir viðskiptin eiga Kristján, Birna og Sigríður samtals 79% hlut bæði í eigin nafni og í gegnum félagið Svöluhraun. Fiskveiðahlutafélagið á sjálft það sem út af stendur.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, er jafnframt stjórnarmaður í Svöluhrauni.

Stórtækir í útgerð

Félög Kristján og Árna, sem ásamt ættingjum beggja voru stærstu hluthafar Fiskveiðahlutafélagsins, áttu stóra hluti i tengdum félögum. Fram kemur í tilkynningu frá HB Granda að Fiskveiðahlutafélagið Venus á 39,5% hlut í Hval en dótturfélag þess, Vogun ehf, 40,3% hlut í HB Granda og 37,9% hlut í Hampiðjunni. Hampiðjan á svo aftur 9,43% hlut í HB Granda. Fiskveiðahlutafélagið Venus á auk þess 3,42% í HB Granda og 14,7% hlut í Hampiðjunni.

Kristján vildi ekki tjá sig um viðskiptin þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hann í kvöld. Ekki hefur fengið uppgefið hvað þremenningarnir greiddu fyrir hlutina í Fiskveiðahlutafélaginu Venusi.