„Ekki að óbreyttu. Við erum ekki að byrja á spítalabyggingu á næsta ári. Það er útilokað,“ segir Kristján Þór spurður hvort vænta megi þess að hafist verði handa við byggingu nýs Landspítala. „Við verðum fyrst að koma heilbrigðisþjónustunni í viðunandi horf. Við verðum að byrja á grunninum. Enginn skynsamur maður hefst handa við að reisa hús án þess að hafa byggt tryggan grunn. Eða ef ég tek samlíkingu við sjóinn þá er til hugtak sem heitir að gera skip sjóklárt. Þá þarftu að búa skipið þannig út að þegar þú siglir því úr höfn þá þoli það ágjöf og erfið veður. Heilbrigðiskerfið í dag er ekki sjóklárt. Það er ekki tilbúið til að stinga stefni í stóra sjói og þola ágjöf. Það er frekar að það hrekist undan veðri og vindum í stað þess að vera á öruggri siglingu.“

Starfsfólk spítalans kvartar undan bágum tækjakosti og húsakosti – fyrir utan auðvitað launakjörin. Þarf þá ekki að gera eitthvað til að brúa bilið?

„Launakjör verða eilíft bitbein og deilumál hjá öllum starfsstéttum. Það er eðlilegt að launþegar geri kröfur um launabætur eftir allt sem á undan er gengið. Við verðum hins vegar að hafa í huga að innistæðan fyrir því sem á að greiða út verður að vera fyrir hendi og okkar sameiginlegi ríkissjóður hefur ekki mikið bolmagn. Einmitt þess vegna verðum við að forgangsraða rétt,“ segir Kristján Þór. „Við eigum að byggja spítalann upp þegar við erum í færum til þess, fjárhagslega og ekki síður út frá þeirri heilbrigðisþjónustu í landinu sem hann á að veita. Hitt er ljóst að við komumst ekki hjá því að bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsmanna með betri tækjakosti og með því að draga úr álagi.“

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins má finna ítarlegt viðtal við Kristján Þór sem tekið var í lok síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.