*

mánudagur, 21. september 2020
Erlent 5. júlí 2019 11:36

Króatía stefnir að evruupptöku 2023

Nýjasta aðildarríki ESB vill ganga í ERM-2 á næsta ári, þrátt fyrir einungis helmings stuðning íbúanna.

Ritstjórn
epa

Króatía kann að taka upp evruna strax í janúar 2023, að því er seðlabankastjóri landsins segir í kjölfar þess að stjórnvöld sendu yfirlýsingu til ESB um að landið hyggðist ganga í ERM-2 samninginn. Seðlabankastjórinn Boris Vijcic sagði ákvörðunina byggja á væntingum um að Króatía gæti uppfyllt skilyrði samningsins, sem er eins konar biðstofa þess að taka upp evruna að fullu.

„Engar fastar dagsetningar eru þó enn í hendi, við verðum að fara í gegnum þetta skref fyrir skref,“ sagði Vijcic, en hann er bjartsýnn á að Króatía muni uppfylla skilyrði ERM-2 um mitt næsta ár og geti þá skipt endanlega um gjaldmiðil „að minnsta kosti tveimur árum“ seinna.

Auk Króatíu, sem er nýjasta aðildarríki Evrópusambandsins, þá hafa bæði Búlgaría og Rúmenía leitast eftir því að taka upp evruna, en af öðrum fyrrum austantjaldslöndum hafa Eistland, Lettland, Litháen, Slóvakía og Slóvenía þegar tekið hana upp.

Stór hagkerfi sýna engan áhuga á evrunni

Hins vegar hafa stærstu hagkerfin á svæðinu, Ungverjaland, Pólland og Tékkland engar áætlanir um að taka upp gjaldmiðilinn, sem þróast ekki eftir hagsveiflum landanna sjálfra, þrátt fyrir að lög ESB skuldbyndi ríkin til þess.

Tvö ríki njóta svo undanþága frá því að taka upp evruna, byggðum á aðildarsamningum landanna þegar enn var hægt að semja um í hverju aðildin fælist, en aðildarferlinu var breytt við innkomu austantjaldslandanna fyrrnefndu.

Það eru annars vegar Bretland sem hyggst yfirgefa Evrópusambandið á árinu, og Danmörk, sem þó er í ERM-2, sem þýðir að fast gengi er á milli dönsku krónunnar og evrunnar. Loks er Svíþjóð meðvitað ekki að fylgja skilyrðum um upptöku evrunnar að því er fram kemur í skýringartexta í frétt Bloomberg um málið.

Upptakan umdeild þó evran sé nýtt fyrir sparifé

Ákvörðun Króatíu nú kemur í kjölfar þess að landið hefur farið í gegnum áætlanir um að draga úr fjárlagahalla og samið um aðgerðaráætlanir á sex öðrum sviðum til að bæta stjórnsýslu og draga úr álögum hennar á efnahagslífið að því er Euroactiv segir frá..

Króatía sem gekk í Evrópusambandið árið 2013 er með einna veikasta hagkerfi sambandsins, en meðallaun í landinu nema 6.434 kunas, sem samsvarar um 124 þúsund krónum, á mánuði. Nú þegar eru um 80% allra bankainnistæðna í landinu í evrum, en samt sem áður sýna kannanir að upptakan er umdeild, en þær sýna frá 39 upp í 52% stuðning við að evran verði tekin upp.

Stikkorð: ESB Króatía evra Boris Vijcic ERM-2