Greiningardeild Arion banka spáir því að hagvöxtur verði áfram kröftugur í ár og á næsta ári, eða 4,7% og 5,2%, en þegar fram í sækir muni hægja á vextinum.

Hann verði drifinn áfram fyrst og fremst af einkaneyslu sem og af fjárfestingu, en hann verði studdur af háu atvinnustigi og kaupmáttaraukningu.

Krónan hefur styrkst um 15% á árinu

Greining bankans gerir ráð fyrir að styrking krónunnar haldi áfram , en hún hefur nú þegar styrkst um 15% á árinu, einkum á síðustu vikum.

Styrkingin muni síðan leiða til aukinnar innlendrar eftirspurnar, halla á viðskiptajöfnuði og að lokum minni hagvaxtar.

Krónan 10% sterkari en getur staðist

Að mati greiningardeildarinnar er krónan allt að 10% sterkari en getur staðist til lengri tíma, þó eins og áður segir sterkar vísbendingar séu um að hún muni styrkjast áfram á næstu mánuðum.

Það muni svo að öllum líkindum grafa undan gengi hennar síðar.